Færsluflokkur: Bloggar

Nýja stjórnin og tiltektin

Ég óska nýjum ríkisstjórnarmönnum og konum til hamingju með með að allt er nú klappað og klárt oh hægt að fara að taka til hendinni.

Vonandi sjáum við þes merki að nýtt fólk er við stjórnvölinn. Ekki er þó hægt að segja að tíminn sé mikill til stórverkanna. Þó verður að treysta á að hann nægi til að skipta um stjórn í Seðlabankanum því eitthvað vefðist það fyrir Sjálfstæðismönnum í fyrri stjórn. Einnig að komist verði til botns í einhverjum af þessum "bankaránsmálum" svo hægt verði að draga einhverja til ábyrgðar.

Ég vona að Jóhanna standi við stóru orðin um að styrkja stöðu heimilanna því ekki veitir af að hafa hraðar hendur þar , því fjöldi manns stendur frammi fyrir gjaldþroti ef ekki verður brugðist hratt við.

Mér finnst ótrúlegt hvað margir beita ljótu orðbragði á blogginu. Það er hægt að segja svo margt án gífuryrða. Stjórnin er varla tekin við þegar menn fara að agnúast út hana. Leyfum henni a.m.k. að hefja starfið. Ég ákvað að gefa þessari stjórn tækifæri þó mér finnist reyndar vanta inn á listann ýmislegt s.s. áætlanir um hvað gera skuli í fiskveiði- og kvótamálum. Í sjónum er mikill auður sem nýta má til uppbyggingar og atvinnustyrkingar. Svo er líka margt sem ég vildi hafa öðruvísi en ég er bara ekki við stjórnvölinn og hef lítinn áhuga á að vinna þessi vanþakklátu störf.

Ég segi því bara við þá sem starfa í núverandi ríkisstjórn: Brettið upp ermar, takið skóflu í hönd og vinnið hratt og vel. Nóg er til að moka upp eftir fráfarandi ríkisstjórn.

 

 


Jæja , þá er það ákveðið - Vinstri stjórn

Vinstri stjórn með stuðningi framsóknar. Eitthvað varð það að vera.

Ég hefði kosið að fá þjóðstjórn en Geir sló úr og í og því fór sem fór.

Mér finnst reyndar aðalatriðið að nýtt fólk fái tækifæri til að sanna sig . Það er nú einu sinni svo að í byrjun eru allir svo vinnuglaðir og tilbúnir að gera sitt besta , svo þetta getur vel átt eftir að færa okkur nokkur skref í átt til bata. Ég ætla að minnsta kosti að gefa þeim tækifæri.

Ég er þó hrædd um að eftirgjöf verði að verða á báða bóga til að þetta geti gengið. Vonandi er einhver sveigjanleiki til staðar hjá báðum flokkum.

Ég hlakka til þegar tiltektin hefst í Seðlabankanum. Það verður frábært og vonandi velst þangað manneskja með víðtæka menntun og reynslu sem gagnast á þessum stað. Alls ekki uppgjafa pólitíkus eina ferðina enn. það hefur aldrei gefist vel.

Til hamingju Jóhanna , þú átt eftir að sýna landanum að þinn tími er kominn.

Spennandi tímar!!!!

 

 


Eru stólarnir aðalatriðið ?

Þá er nú dagur að kveldi kominn og forsetinn búinn að tala við alla formenn flokkanna.

Hvað skyldi morgundagurinn bera í skauti sér.

Allt bendir til minnihlutastjórnar því þrátt fyrir yfirlýsingar um að hlaupast ekki undan skyldum er Geir horfinn með sitt fylgdarlið. Hann gat ekki hugsað sér að taka þátt í þjóðstjórn nema fá að ráða. Hann féll í þá lítilsverðu gryfju að fara að senda samstarfsflokknum tóninn og tala um klofning en varaði sig ekki á að flestir sem sjón og heyrn hafa vita að klofningur er líka í hans flokki sem og flestum flokkum sem verið hafa á Íslandi.

Stólar og titlar virðast vera stórt atriði hjá stjórnmálamönnum og er þá ekki hirt um það sem skiptir mestu máli. Nefnilega fólkið sem býr í þessu landi og heldur samfélaginu gangandi.

Sjálfstæðisflokkurinn er samnefnari spillingar og einkavinavæðingar og bara hið besta mál að hann fái að hvíla sig um sinn. Vonandi sem lengst. Ekki eftirsjá að honum.

Best að fara að leggja sig til að hafa kraft til að taka við fréttum morgundagsins.

Spennandi tímar.


Máttur mótmælenda

Segið svo að mótmæli skili ekki árangri.

Stjórnin fallin og Geir hótar að vera í forsvari fyrir nokkurs konar þjóðstjórn. Nei , takk Geir , nú er komið nóg. Láttu nú eftir þér að stíga til hliðar og hleypa öðrum að.

Ég held að forystumenn hinnar föllnu stjórnar eigi ekki að láta sér detta í hug að stýra nýrri stjórn hvernig sem hún verður mynduð. Það verður að velja nýtt fólk með nýjar áherslur og vilja til að taka á þeim málum sem brýnust eru. Mér finnst ekki skipta mestu úr hvaða flokki þeir koma ef þeir eru vandanum vaxnir og tilbúnir að vinna fyrir fólkið.

Þeir sem nú eru fallnir eru það vegna áhuga- og getuleysis svo þeir geta engu breytt.

Ætlar Davíð ekki að svara kalli fólksins og víkja úr Seðlabankanum eða er hann svo hrokafullur að hann telji sig ekki þurfa að hlusta þau skilaboð sem honum eru send?

 Ég óska þeim góðs gengis sem nú þurfa að fást við þau erfiðu verkefni sem framundan eru.


Hvað er framundan ?

Nú hefur verið boðað að kosningar verði í maí. Hvað á að gera þangað til. Formenn beggja stjórnarflokkanna að berjast við erfið veikindi og ekki gæfulegt lið sem hugsanlega er ætlaða taka á sig hluta af vinnu þeirra. Er ekki nokkuð ljóst að nú verður að stokka spilin upp á nýtt og mynda nýja stjórn strax. Hvort sem það verður þjóðstjórn eða vinstristjón mundi hún einungis starfa þar til að loknum kosningum. Gerum eitthvað raunhæft strax. Það er búið að sóa alltof miklum tíma í alltof litla vinnu. Skiptum nokkrum ráðherrum út fyrir vonandi aðra betri.


Kveðjur til Geirs og fjölskyldu

Mér þykir leitt að heyra um veikindi Geirs Haarde og vona svo sannarlega að hann vinni sigur í þeirri baráttu sem hann á framundan. Ég sendi honum og fjölskyldu hans bestu kveðjur.

Nú vona ég að Ingibjörg taki líka ákvörðun um að stíga til hliðar.

Ekkert er mikilvægara en heilsan og henni á ekki að fórna á pólitísku sviði.


"Vér mótmælum allir"

Eftir að hafa horft á myndir frá mótmælunum við Alþingishúsið í gær er mér verulega brugðið. Ekki vegna þess að fólk mótmæli , nei alls ekki , heldur að við skulum vera komin í þessa stöðu að þurfa að beita svona aðgerðum.

 Að horfa á eldra fólk sárt og reitt , ekki að það sé að hafa áhyggjur af sér , heldur börnum sínum og barnabörnum sem þurfa að axla alla ábyrgð á sukki þeirra manna sem hafa farið afar frjálslega með fjármagn og þeirra sem stóðu hjá og létu þetta viðgangast.

Að horfa á fólk sem er að missa vinnuna og mun þá jafnvel tapa aleigunni. Að horfa á fólk sem er að missa vonina.

Að horfa á 10 ára dreng klæddan eins og hryðjuverkamann , troðið í fremstu víglínu. Hvað eru foreldrar að hugsa að setja barn sitt í þessa stöðu eða hugsar fólk ekkert. Mótmæli sem komin eru á þetta stig eru ekki vettvangur fyrir börn.

Hvernig getur þetta gerst í siðmenntuðu landi?

Þjóðarskútan hefur siglt í strand. Einhverjir unnu skemmdarverk á henni og því fór sem fór.

Hvar eru "björgunarsveitirnar"?  Eru þær kannski uppteknar við að bjarga eigin skinni og vina sinna. Þær eru a.m.k. ekkert að flýta sér á strandstað svo skipverjar eigi einhverja lífsvon. Nei veislan heldur bara áfram með sama sukkinu og áður.

Fólk er reitt , þjóðin er reið. Skyldi nokkurn undra. Á Alþingi sitja þingmenn svo og ætla að ræða um það hvort ekki sé tími til kominn að selja áfengi í matvöruverslunum. Maður skyldi ætla að einhver brýnni mál bíði úrlausnar á þessum síðustu og verstu tímum. Er þetta fólk verulekafirrt eða hvað?

Ég hef ekki verið talsmaður mótmæla en nú skil ég af hverju fólk grípur til svona aðgerða.

Ég skil að fólk láti heyrast hátt í sér en það er ekki rétt að láta reiðina  bitna á lögreglumönnum sem eru að vinna vinnuna sína og hafa ekki neitt um það að segja hvert þeir er sendir hverju sinni. Þetta er láglaunastétt sem er örugglega jafn reið og við hin yfir ástandinu.

Ég skil að fólk berji bumbur og hafi hátt og þykist vita að gærdagurinn sé aðeins forleikur að stórtónleikum. Kannski stærstu tónleikum Íslandssögunnar.

Spennandi tímar!!!!

 


Snærisþjófar á ferð í Árnessýslu.

Nokkur orð í belg 

Ég hef ekki farið mikinn á bloggi landsmanna fram að þessu en nú blöskrar mér. Sýslumaðurinn á Selfossi fer nú mikinn og eltir uppi “snærisþjófa”.

Þarna er sjálfsagt misjafn sauður í mörgu fé , en margir sem þarna eru í sjálfheldu eru það vegna þeirra sem “rændu” bankana okkar með slíkum öldugangiað eftir stendur berrassaður almúginn og skilur ekki neitt í neinu.  

Bjarni Ármannsson , sem innleiddi ósómann “greiddi til baka” smáupphæðí nafni samvisku. Ætli samviskan sé nú alveg í góðu lagi? En bíðum við , var hann annars nokkuð búinn að fá þetta greitt? Hvort sem það var eður ei , þá hefði hann verið maður að meiri að taka greiðsluna og gefa hana til mæðrastyrksnefndar og létta þannig á samviskunni. 

 Nei , ég er ekki fjárglæframaður segir Ólafur Ólafsson með tárin í augunum yfir óréttlæti heimsins og þykir nú að heiðri sínum vegið.

Í orðabók segir að fjárglæfrar merki:  glæfraleg fjármál.

Er enginn glæfraskapur í fjármálum þessa manns?

Spyr sá sem ekki botnar neitt í neinu lengur. 

Stjórnvöld klóra sér í kollinum og bíða , eftir hverju veit ég ekki , en það skyldi þó ekki vera að menn séu hræddir við að komast að einhverju sem ekki má líta dagsins ljós. 

Spennandi tímar!!!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband