"Vér mótmælum allir"

Eftir að hafa horft á myndir frá mótmælunum við Alþingishúsið í gær er mér verulega brugðið. Ekki vegna þess að fólk mótmæli , nei alls ekki , heldur að við skulum vera komin í þessa stöðu að þurfa að beita svona aðgerðum.

 Að horfa á eldra fólk sárt og reitt , ekki að það sé að hafa áhyggjur af sér , heldur börnum sínum og barnabörnum sem þurfa að axla alla ábyrgð á sukki þeirra manna sem hafa farið afar frjálslega með fjármagn og þeirra sem stóðu hjá og létu þetta viðgangast.

Að horfa á fólk sem er að missa vinnuna og mun þá jafnvel tapa aleigunni. Að horfa á fólk sem er að missa vonina.

Að horfa á 10 ára dreng klæddan eins og hryðjuverkamann , troðið í fremstu víglínu. Hvað eru foreldrar að hugsa að setja barn sitt í þessa stöðu eða hugsar fólk ekkert. Mótmæli sem komin eru á þetta stig eru ekki vettvangur fyrir börn.

Hvernig getur þetta gerst í siðmenntuðu landi?

Þjóðarskútan hefur siglt í strand. Einhverjir unnu skemmdarverk á henni og því fór sem fór.

Hvar eru "björgunarsveitirnar"?  Eru þær kannski uppteknar við að bjarga eigin skinni og vina sinna. Þær eru a.m.k. ekkert að flýta sér á strandstað svo skipverjar eigi einhverja lífsvon. Nei veislan heldur bara áfram með sama sukkinu og áður.

Fólk er reitt , þjóðin er reið. Skyldi nokkurn undra. Á Alþingi sitja þingmenn svo og ætla að ræða um það hvort ekki sé tími til kominn að selja áfengi í matvöruverslunum. Maður skyldi ætla að einhver brýnni mál bíði úrlausnar á þessum síðustu og verstu tímum. Er þetta fólk verulekafirrt eða hvað?

Ég hef ekki verið talsmaður mótmæla en nú skil ég af hverju fólk grípur til svona aðgerða.

Ég skil að fólk láti heyrast hátt í sér en það er ekki rétt að láta reiðina  bitna á lögreglumönnum sem eru að vinna vinnuna sína og hafa ekki neitt um það að segja hvert þeir er sendir hverju sinni. Þetta er láglaunastétt sem er örugglega jafn reið og við hin yfir ástandinu.

Ég skil að fólk berji bumbur og hafi hátt og þykist vita að gærdagurinn sé aðeins forleikur að stórtónleikum. Kannski stærstu tónleikum Íslandssögunnar.

Spennandi tímar!!!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband